13.6 Flogið til Milano Malpensa með Icelandair brottför frá KEF 16:50 lending Milano 22:40. Rútan keyrir okkur beint til Menaggio þar sem við gistum í 9 nætur með morgunverði og kvöldverði http://www.hotel-bellavista.org/
14.6. Bellagio
10:10 – Sigling yfir til Bellagio með viðkomu í Varenna.
Gengum fyrst út að höfðann þar sem Villa Serbelloni garðurinn er sem er í eigu Rockefeller Foundation. Síðan gengum við upp í gamla bæinn þar sem við kíktum inn í kirkjuna. Hluti af hópnum gekk svo yfir til Pescallo þar sem við borðuðum góðan hádegisverð á veitingahúsinu Hotel Pergola. Byrjaði að rigna með þrumum og eldingum á meðan við vorum inni á veitingastaðnum. Gengum í rigningu tilbaka til Bellagio þar sem við tókum ferjuna aftur til Menaggio um fjögurleytið.
15.6. Piazzogna – Ranzo
08:10 Akstur til Piazzogna – tók um 2 klst og rútan komst ekki alla leið til Piazzogna þar sem á leiðinni upp til Piazzogna eru margar beygjur sem voru of þröngar fyrir rútuna. Þeir sem ætluðu að gangu tóku strætó frá Vira til Piazzogna þar sem við byrjuðum gönguna um klukkan11:00. 4 ferðalangar urðu eftir niðri og gengu þau meðfram vatninu og heimsóttu veitingastaði á meðan við gengum.
Gengið í zig-zak á skógarstígum upp til Monte Piazzogna (790m) sem var um 540 hækkun. Sáum á Lago Maggiore í gegnum trén af og til. Smá nestishlé þegar komið var upp. Síðan héldum við áfram upp og niður, fórum yfir brýr og stað sem steinskriða hafði fallið fyrir mörgum árum.Tvö önnur stutt nestisstopp voru á leiðinni.
Þetta var ekki erfið ganga fyrr en við fórum niður. Tókum greinilega stíg sem ekki hafði verið gengið lengi á. Hlaðinn göngustígur með misstórum steinum og skófir á steinunum og þar sem það hafði rignt aðeins síðastliðna daga, þá voru steinarnir mjög sleipir. Þetta var líka frekar bratt niður og mörgum gekk erfiðlega að ganga þennan stíg niður til Ranzo. Nokkrir duttu en enginn slasaðist alvarlega, sem betur fer. Tók okkur um 2 tíma að komast þessa leið niður. Vorum orðin alltof sein. Höfðum ætla að hitta rútuna klukkan 17 í Ranzo en lögðum ekki af stað fyrr en klukkan 19. Komum á hótelið i Menaggio um 20:30 og beið kvöldmaturinn eftir okkur.
Veðrið var gott, hlýtt en sólarlítið. Einn skúr kom á miðri leið og drifu allir sig í regnstakka í smástund.
Kort af gönguleiðinni frá Piazzogna til Ranzo
16.6. Sigling til Como
11:10 Brottför með ferjunni til Como með stoppi á mörgum fallegum bæjum á leiðinni. Veðrið var yndislegt, sól og hlýtt og gott að sitja úti á ferjunni. Komum um 13:30 til Como og gengum þá að dómkirkjunni í bænum. Dómkirkjan var byggð frá 1396-1740. Framhliðin er frá 15. öld og þykir meistaraverk Renaissance stílsins.
Como er oft kölluð silkiborgin þar sem þar hefur verið silkiframleiðsla síðan á 16. öld. Í dag er ¼ af heims- og 70% af Evrópu framleiðslunni sem er framleiddur í Como.
Um leið og við komum út úr dómkirkjunni fór að rigna. Þrumur og eldingar og rigndi eins og hellt úr fötu. Flestir fóru þá á veitingastaði til a fá sér hádegismat og svo var kíkt í verslanir. Við tókum hraðferjuna klukkan 17:10 tilbaka til Menaggio og vorum komin um klukkan 18
17.6. San Salvatore – Morcote
08:15 brottför af hótelinu til Lugano Komum til Paradiso rúmlega 9 og tókum togbrautina upp á San Salvatore klukkan 09:30 Dásamlegt veður, sól og hlýtt og þvílíkt útsýni frá San Salvatore fjalli sem er í 912 m hæð.Allir fóru í gönguna nema Maddý og Eygló sem eyddu deginum í Lugano.Gangan gekk vel til að byrja með, gengið á grófum skógarstígum og allt niður í móti. Við komum til Ciona sem er í 612 m hæð um klukkan hálftólf og tókum smáhlé þar í sólinni. Héldum svo áfram til Carona og vorum komin þangað 11:45. Við borðuðum hádegisverð á Ristorante Posta sem er á Michelin lista síðan 2008. Við borðuðum úti í fallegum garði og trjákrónur skýldu okkur fyrir sólinni. Hægt var að velja á milli tveggja rétta, heimagert pasta með hráskinku og spínati eða risotto með taleggio osti og aspas. Pastað var mun vinsælla J
13:45 héldum við áfram, fyrst aðeins upp í móti og svo var ansi bratt niður í móti, mest allt tröppur. Viggó taldi tröppurnar frá því að þær byrjuðu og þar til við komum alveg niður og voru þær um 1400. Enda fengu margir illt í hnén og áttu erfitt með að ganga síðasta spölinn. En allir komust samt niður. Hópurinn beið við kirkjuna í Morcote. Við gengum svo saman niður síðustu tröppurnar (400) og náðum að fá okkur einn drykk áður en við tókum ferjuna klukkan 17:02 aftur til Paradiso þar sem rútan, Maddý og Eygló biðu okkar þar.
Kort af göngunni frá Monte San Salvatore til Morcote.
18.6 Frjáls dagur, gengum um Mennaggio, fórum í sólbað á svölunum, tókum litla túristalest til bæjarins Lenno sem við gengum um og skoðuðum.
19.6. Parco de Breggia
08:15 brottför í Muggio dalinn – Akstur um 1 ½ klst til Balerna þar sem við hófum gönguna.Gott veður, hlýtt og sól. Breggia garðurinn er fyrsti GEO garðurinn í Sviss. Hann er staðsettur fremst í Muggio dalnum, sem er syðsti dalur Sviss. Breggia garðurinn er jarðfræðilega mjög áhugaverður, steintegundir þarna eru yfir 100 milljón ára gamlar og þarna er mikið um steingervinga.
Við byrjuðum á að fara í upplýsingamiðstöð garðsins en hún opnaði ekki fyrr en klukkan 10. Við reyndum að komast að hvar ætti að byrja gönguna en fundum ekki út úr því svo við biðum eftir að upplýsingamiðstöðin opnaði. Byrjun göngunnar um Breggia gjána er rétt við bílastæðið og er illa merkt. Við gengum meðfram Breggia ánni, sáum mikið af fallegum steingervingum í ánni í öllum litum. Við gengum framhjá gömlu sementsverksmiðjunni sem var starfrækt þarna til 2004. Góður göngustígur áfram upp í móti, tröppur að hluta. Komum að svæði þar sem voru bekkir og borð og stöldruðum aðeins við. Héldum aðeins áfram og komum að Punt da Canaa brúnni. Við snérum við þar og fórum tilbaka, ætluðum að taka aðra leið upp af Sementsverksmiðjunni og að upphafsstaðnum en sú leið var lokuð vegna jarðskriða sem höfðu fallið á stíginn. Gengum þá sömu leið tilbaka og komum að rútustæðinu um hálfeitt. Ókum þá að veitingahúsinu Grotto del Mulino þar sem við áttum pantaðan hádegisverð. Sátum úti undir trjákrónum. Fengum góðan mat, pasta með kjötsósu og blandað salat. Héldum svo áfram akstri inn í Muggiodalinn, þröngar götur og lítil þorp á leiðinni. Við stoppuðum aðeins í Bruzella, gengum upp í miðbæ þorpsins þar sem kirkjan er og kíktum inn í hana. Ekkert líf í þorpinu. Við héldum svo áfram til Muggio og stoppuðum aftur þar. Ekkert líf þar heldur. Vildum fá drykk á veitingahúsi sem við sáum þar en allt var lokað og læst. Bílstjóri rútunnar okkar náði tali af strætóbílstjóra á staðnum, sá virtist búa þarna. Hann hringdi á einhverja staði, fannst ótækt að við fengjum hvergi inni til að svala þorstanum. Fann stað þar sem við ókum á, rétt fyrir utan Caneggio, staðurinn heitir „Ristorante Lattecaldo“. Sátum úti og fengum drykki eins og við vildum, sem var kærkomið. Ókum síðan til Cernobbio þar sem við stoppuðum í silkioutlettinu Lario Seta og stormuðum inn og gerðu sumir góð kaup á silkislæðum þar.
Hér fyrir neðan kort af Geopark Breggia svæðinu. Við byrjuðum gönguna á hlutanum sem er neðstur á kortinu, gengum samkvæmt rauðu línunni næstum upp allt kortið að C og svo tilbaka.
20.6. Gandria – Lugano
08:30 brottför til Lugano.
Komum til Lugano um hálftíu og stoppuðum á strætóstoppistoð rétt við byrjunina á Sentiro de olivo göngustígnum. Auðveld ganga meðfram vatninu til Gandria. Ótrúlega falleg gönguleið á þröngum stígum. Komum til Gandria um 10:30. Sumir settust inn á veitingastað þar og fengu sér drykk. Hinir gengu aðeins lengra og svo tilbaka. Tókum svo ferjuna til Lugano um 11:15. Yndislegt veður, sól og heitt. Stoppuðum á leiðinni á nokkrum stöðum áður en við komum til Lugano. Gengum um miðbæinn og enduðum fyrir framan Manor kauphúsið. Bar Sempione er við hliðina á Manor og fórum við nokkur þangað og borðuðum hádegismat hjá Luca, stráknum sem ég passaði árið 1974. Hann töfraði fram flatbökur með osti og skinku á smátíma, sem var mjög gott. Alessandro, bróðir hans kom líka og fjölskyldur þeirra beggja. Einnig Dino, pabbi þeirra, sá sem ég var í vist hjá fyrir 40 árum og vann reyndar á barnum hjá honum og Dolores konu hans.
Eftir hádegisverðinn var gefinn frjáls tími til verslunar þar til rútan kom klukkan 17 við Lido-ið og ók okkur aftur til Menaggio.
21.6.Menaggio – Val Sanagra
09:00 brottför frá hótelinu til Val Sanagra.
Við vorum 6 sem ákváðum að ganga í Val Sanagra frá hótelinu, Sigga, Bjarni, Jónas, Sigrún, Dagný og ég.
Gengum í gegnum bæinn allt upp í móti. Tók okkur um klukkutíma að komast að byrjun göngunnar í dalnum. Mjög falleg gönguleið meðfram ánni Sanagra, þar sem menn voru með veiðistangir að veiða silung. Komum að fiskeldisstöð þar sem silungur er ræktaður. Héldum áfram og tókum smáhlé við bekki og borð á leiðinni. Áfram var haldið og yfir brú á ánni þar sem risastórt bjarg lokar næstum leið árinnar, alveg ótrúlega falleg sjón. Gengum síðan upp tröppur sem hoggnar voru í bjargið, toguðum okkur upp á járnreipum. Ákváðum þegar við vorum komin áleiðis þarna upp að fara tilbaka sömu leið. Stoppuðum á leiðinni á veitingastaðnum La Vecchia Chioderia sem áður var naglaverksmiðja. Komum til Menaggio um klukkan 14:30.
Yndislegt veður, sól og vel heitt.
22.6. Milano
11:00 Brottför til Milano.
Tók um 1 ½ tíma að keyra til Milano. Stoppuðum við Garibaldi járnbrautarstöðina. Gengum sem leið lá niður í miðbæ Milano. Fyrst stoppuðum við hjá nýjum háhýsum þar sem allar svalir hafa sinn eigin garð með miklum trjágróðri. Síðan gengum við göngugötur og komum að San Marco götunni þar sem var útimarkaður og markt girnilegt að sjá, bæði matarkyns og annað. Gengum áfram að óperuhúsinu fræga, Scala, og svo þaðan í gegnum verslunarmiðstöðina Vittorio Emanuele sem er frá 18.öld og komum þá að dómkirkjunni í Milano. Hér tvístraðist hópurinn, sumir fóru í hádegismat, aðrir skoðuðu dómkirkjuna og enn aðrir fóru í verslunarleiðangur. Hittumst svo aftur klukkan 20 við Garibaldi járnbrautarstöðinu þar sem rútan mætti og ók okkur á Malpensa flugvöllin þar sem við tókum flug heim klukkan 23:40
Veður gott, sól og heitt.